Einn örfárra leikvalla í gamla vesturbænum er í niðurníðslu á horninu á Hávalla og Bræðraborgarstíg. Þar er ein smábarnaróla og fremur óspennandi rennibraut. Síðan er svæðið vannýtt í kringum einn rónabekk. Réttast væri að byrja frá grunni og setja þarna upp flott sjóræningjaskip til að klifra í.
Það búa mjög mörg börn þarna í hverfinu sem eflaust hefðu gaman að því að leika sér þarna. Lóðin er á besta stað en mjög vannýtt og sjálfsagt að nýta reitinn miklu betur. Það er langt í aðra leikvelli og því miður er sá sem er næst bak við Landakotsspítala lokaður af fyrir leikskólann þar. Gott klifurskip sem má kaupa sem pakkalausn er vonandi ekki of dýrt til að setja upp þarna og myndi sóma sér vel.
Af reynslunni við lagfæringarnar á Héðinsróló þarf að huga að því að hönnun á "Bláa róló" taki mið af því að það eru fyrst og fremst börn sem nota svæðið. Mögulega væri hugmynd að spyrja bara börn sem búa nálægt um hvernig leiktæki þau hefðu áhuga á að hafa þarna?
Sem fyrrverandi barn og faðir 3 barna finnst mér mjög mikilvægt að búa til almenninlegan róló miðsvæðis á þessu þéttbýla svæði. Með því að bæta aðstöðuna á bláa róló stuðlum við að manneskjulegra samfélagi þar sem börn og fullorðnir úr hverfinu geta notið samskipta. Góður róló er lím samfélagsins. Svona framkvæmd þarf alls ekki að kosta mikið en gefur fáranlega mikið til baka. Hressum upp á alltof daufan róló!
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation