Hvað viltu láta gera? Þrengja og "hlykkja" Jaðarsel frá gatnamótum við Breiðholtsbraut að gatnamótum við Holtasel og lækka hámarkshraða í 30 km/klst. Gróðursetja tré meðfram götunni og gera umhverfi aðlaðandi og öruggt fyrir gangandi og hjólandi. Hvers vegna viltu láta gera það? Jaðarsel er gata sem liggur í gegnum íbúðarhverfi. Þétt byggð er beggja vegna götunnar og umferð gangandi og hjólandi mikil bæði yfir og meðfram götunni. Skólabörn sem búa ofan Jaðarsels þurfa að ganga yfir götuna til að sækja skóla í Seljaskóla. Sama gildir um leikskólabörn sem fylgt er fótgangandi í leikskóla hverfisins. Slysahætta er veruleg. Hávaða- og loftmengun sem stafar af of hraðri bílaumferð (sem er iðulega vel umfram núverandi hámarkshraða) er óþarflega mikil og væri hægt að draga verulega úr henni með því að lækka umferðarhraðann.
Bílar aka of hratt um þessa götu.
Það er ekki hægt að segja að það sé þétt byggð beggja vegna Jaðarsels því það eru engin hús við Jaðarselið sjálft og mjög gott útsýni í götunni. Það eru hraðahindranir og þrengingar á henni og ég hef ekki orðið var við hraðakstur þá áratugi sem ég hef búið þarna í hverfinu.
Vissulega má deila um hvað sé þétt byggð og hvað ekki. Loftmynd á borgarvefsjá sýnir hins vegar að verulegt magn af íbúðum stendur beggja vegna götunnar þó engin þeirra hafi Jaðarsel sem heimilisfang. Fjöldi íbúða á þessu svæði er á bilinu 800-1000. Ég hef búið í Kaldaseli, með útsýni yfir Jaðarsel, í um þrjú ár. Verð vitni af hraðaakstri oft á dag og einstaka sinnum ofsaakstri.
Sammála með að gróðursetja tré og gera fallegt. En sé ekki þörfina fyrir að lækka hámarkshraðann eða hvað þá svona leiðindar hlykkji. Opin og breið gata með engum íbúðarhúsum á. Bý sjálfur við Jaðarsel eða fyrir neðan og umferðin truflar mig ekki neitt. Frekar að skella upp gangbrautarljósi fyrir gangfarendur og hjólreiðafólk. Maður þarf hvort sem er að hægja á niður í 20 -30 til að fara yfir hraðahindranirnar
Sammála þessarri tillögu. Þarna er stór grunnskóli og leikskóli. Hraðahindranirnar sem eru nú þegar eru brandari og blindsveigurinn t.d. við Melsel er stórhættulegur ungu kynslóðinni. Styð þessa hugmynd heilshugar!
Fagteymi sérfræðinga á umhverfis- og skipulagssviði hefur metið þessa hugmynd. Hugmyndin er ekki tæk í kosningu í verkefninu Hverfið mitt 2019. Skipulagsferill þessa verkefnis er of langur fyrir tímaramma verkefnisins Hverfið mitt. Hugmyndinni verður komið áfram sem ábendingu til viðeigandi aðila. Hér má sjá lista yfir þær hugmyndir sem verða til kosninga í verkefninu Hverfið mitt þann 31. október - 14. nóvember nk. www.hverfidmitt.is Í kosningunni getur þú stjörnumerkt þína uppáhalds hugmynd og gefið henni þannig tvöfalt vægi!
This content is created by the open source Your Priorities citizen engagement platform designed by the non profit Citizens Foundation